Látinn er kær félagi og samstarfsmaður í nærri hálfa öld. Margs er að minnast þegar litið er yfir farinn veg samskipta minna við fræði- og forstöðumanninn
Jón Gunnar. Leiðir okkar lágu fyrst saman þegar hann fór til starfa á Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá. Síðan áttum við mikil og góð samskipti í áratugi, báðir forstöðumenn stórra ríkisstofnana í umhverfisgeiranum. Jón Gunnar var alltaf vel liðinn af starfsfólki þeirra stofnana er hann stýrði eins og kom fram í árlegum könnunum um árangur ríkisstofnana.
Hann var hafsjór af fróðleik um náttúru- og umhverfisvernd á innlendum og alþjóðlegum vettvangi og var stálminnugur. Hann var afar ritfær og skrifaði fallegt íslenskt mál og einkar vel skrifandi á ensku.
Þegar við höfðum báðir látið af störfum sökum aldurs sem forstöðumenn ríkisstofnana tókum við höndum saman með Andrési Arnalds við baráttuna
fyrir stóraukinni náttúruvernd hér á landi. Við vorum rækilega studdir af hópi vísindafólks frá mörgum fræðigreinum. Okkur sveið hvað náttúra landsins er
hart leikin af hömlulausri skógrækt og ferðamennsku. Við stofnuðum
því almannaheillafélagið Vinir íslenskrar náttúru, VÍN. Þar var Jón Gunnar fremstur íflokki, harðduglegur og útsjónarsamur með víðtæka reynslu af stjórnsýslu og lögum um náttúruvernd. Þegar hér var komið sögu var hann orðinn mjög veikur og þurfti að fara í erfiðar blóðskiljunarmeðferðir þrjá daga vikunnar. Með einstakri alúð og hjálpsemi Margrétar, eftirlifandi eiginkonu sinnar, tókst honum að vinna langan vinnudag hina fjóra daga vikunnar. Hann tók veikindum sínum af einstæðu hugrekki og þrautseigju. Vinnuafköstin voru ótrúlega mikil og vinnubrögðin öguð og skipulögð. Nú er skarð fyrir skildi hjá okkur félögunum í VÍN þegar foringinn er fallinn frá. Hans skarð verður trauðla fyllt, en við sem eftir stöndum verðum að standa þéttan vörð um íslenska náttúru. Það er hart sótt að henni sem aldrei fyrr og lítið um varnir hjá hinu opinbera. Náttúruvernd er meira og minna munaðarlaus í íslenskri stjórnsýslu.
Að leiðarlokum er mér efst í huga þakklæti fyrir áralangt heilladrjúgt samstarf og samskipti. Jón Gunnar er einn minnisstæðasti persónuleiki sem ég hef kynnst. Mér var heiður að fá að starfa með honum og eiga við hann samskipti um áratugaskeið.
Margrét, fjölskyldur, ættingjar og vinir kveðja nú mikilhæfan mann með söknuði og þakklæti fyrir að hafa fengið að njóta samvistanna við hann. Ég bið þeim
Guðs blessunar og votta þeim mína dýpstu samúð.
Sveinn Runólfsson.
Sjá einnig Hrafnar fylgdu honum í Heimildinni
Jón Gunnar Ottósson starfandi formaður félagsins lést í nótt. Hann veiktist skyndilega í gærkvöldi og var fluttur á sjúkrahúsið á Selfossi og þaðan á gjörgæslu í Reykjavík þar sem hann lést. Stjórn VÍN sendir konu hans, Margréti Frímannsdóttur, börnum, barnabörnum og fjölskyldum innilegar samúðarkveðjur.
Hjálmar Waag Árnason verður fulltrúi VÍN á norrænni málstofu um Older people and the climate in the Nordic countries sem haldin verður á Nauthóli þann 27-28. september.
Dagskrá málstofunnar
Skráning á málstofuna
Um verkefnið á vef Environice
Selfossi 1. júí 2023
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið
B.t. Guðlaugs Þór þórðarsonar ráðherra
Félagið Vinir íslenskrar náttúru (VÍN) er að skoða framkvæmd laga nr. 60/2013 um náttúrvernd, sérstaklega framkvæmdina er varðar XI kafla laganna um innflutning og dreifingu lifandi framandi lífvera. Þar virðist vera pottur brotinn.
Í 63. gr. laganna kemur skýrt fram í 1. mgr. að óheimilt sé að flytja inn eða dreifa lifandi framandi tegundum nema með leyfi og að með umsókn um slíkt leyfi skuli m.a. fylgja “áhættumat”. Í 2. mgr. er undanþága sem nær til tegunda sem þá voru notaðar hér á landi, m.a. í landgræðslu og skógrækt. Þessi undanþága er þó bundin við „innflutning“ tegundanna, en nær ekki til dreifingarinnar, sbr.
orðalag greinarinnar. Dreifing margra tegunda virðist þó vera í fullum gangi án leyfa, sbr. t.d. alaskalúpínu.
Sjá allt bréfið hér.
Þrír VÍN félagar hafa sent umsagnir á Samráðsgátt stjórnvalda um sameiningu 10 stofnana í þrjár stofnanir.
- Umsögn Magnúsar Jónssonar, fyrrverandi veðurstofustjóra
- Umsögn Jóns Gunnars Ottóssonar, fyrrverandi forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands og starfandi formanns VÍN
- Umsögn Kristínar Huldar Sigurðardóttur, fyrrverandi forstöðumanns Minjastofnunar Íslands og Fornleifaverndar ríkisins
Sveinn Runólfsson, formaður stjórnar Vina íslenskrar náttúru (VÍN), hefur ákveðið að draga sig í hlé frá stjórnarstörfum. Með þessu vill Sveinn skapa sér rými til að einbeita sér að ritun bókar um sögu Gunnarsholts sem áætlað er að gefa út í lok þessa árs.
Enginn þekkir sögu höfuðstöðva Sandgræðslunnar, og síðar Landgræðslunnar, betur en Sveinn. Hann bjó í Gunnarsholti í hartnær 70 ár, þar af sem landgræðslustjóri í 44 ár. Stjórn VÍN óskar Sveini alls hins besta við ritun og útgáfu þessa mikla verks. Ennfremur þakkar stjórnin Sveini fyrir frumkvæði að stofnun félagsins og óeigingjarnt starf í þágu þess.
Sveinn verður áfram félagi í VÍN. Hann óskar stjórninni alls velfarnaðar og sendir öllum félögum í VÍN baráttukveðjur. Megi starfsemin vaxa og eflast til verndar náttúru Íslands!
Ný stjórn verður kjörin á aukaaðalfundi í haust. Þangað til mun Jón Gunnar Ottósson varaformaður VÍN vera starfandi formaður. Þóra Ellen Þórhallsdóttir sem var í varastjórn VÍN tekur sæti í bráðabirgðastjórninni sem meðstjórnandi.
Umsögn VÍN um frumvarp til laga um sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar í nýja stofun undir heitinu Land og skógur. Sjá allar umsagnir hér.
Höfundur þessarar greinar í Bændablaðinu vill benda á og leiðrétta mistök sem honum urðu á við frágang greinarinnar. Stafafura er ekki sú tegund sem mest er ræktuð á Íslandi. Það er birkið. Hvað varðar meira efni um þessi mál á Nýja Sjálandi, sjá til dæmis vef Otago héraðs sem veitir ágætis yfirlit frá heildrænu sjónarmiði og vefinn Prevent the spread.
Aðalfundur félags vina íslenskrar náttúru, VÍN var haldinn í fjarfundabúnaði 21. febrúar sl. Fundurinn var vel sóttur af stofnfélögum en þeir eru 41 talsins. Sjá nánar hér
Umsögn VÍN um drög að frumvarpi um sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar í nýja stofun undir heitinu Land og skógar.
Sjá einnig umsögn Ólafs Sigmars Andréssonar, stofnfélaga í VÍN.
Svar matvælaráðherra við fyrirspurn Orra Páls Jóhannssonar um kostnaðar- og ábatagreiningar vegna skógræktarverkefna (Sjá málsnúmer 422 á vef Alþingis)
Erindi Sigurðar H. Magnússonar á málþingi Hins íslenska nátturufræðifélags (HÍN) og Félags íslenskra náttúrufræðinga (FÍN) 30. nóvember um skógrækt, loftslagsmál og lífríki Íslands.
Orri Páll Jóhannsson þingmaður hefur lagt fram fyrirspurn til matvælaráðherra um kostnaðar- og ábatagreiningar vegna skógræktarverkefna. Sjáðu nánar málsnúmer 422 á vefsíðu Alþingis.
Glærur frá fundi fræðimanna og áhugafólks um náttúru Íslands með ráðherra matvælaráðuneytis.